fimmtudagur, 8. október 2015

Haust

Það fer ekki á milli mála að haustið er komið. Mér finnst alltaf ákveðinn sjarmi yfir haustinu, haustlitirnir, rútínan og lækkandi sól sem þýðir að það styttist óðum í veturinn og jólin. Ég verð samt að játa að haustið í Danmörku er töluvert fallegra en hér, því þar er ekki alveg eins mikil rigningarsuddi og brjálað rok. Það er svona pínku ókostur við elskulega haustið, ógeðslega veðrið sem fylgir. Auk þess er haustið mun lengra í Danmörku,  nær alveg vel fram í nóvember. Ekki það, ég veit ekki af hverju í ósköpunum ég fór að tala um haustið í Danmörku, Danmörk er náttúrulega alltaf on top of my mind, sama hvað. 


Tók þessa fallegu mynd í Vordingborg í Danmörku haustið 2013, þegar ég var þar í skiptinámi. Elsku haustið. Ótrúlegt að það séu komin tvö ár síðan ég var þar. Skemmtileg tilviljun, bæði herbergisfélaginn minn og vinkona mín úr vettvangsnáminu  úti koma að heimsækja Ísland í haust, önnur var að fara eftir hringferð um landið og hin kemur í næstu viku, gaman að rifja skiptinámið upp. Góðir og lærdómsríkir tímar.


Svo ég færi mig nú aftur í íslenska haustið. Þessar myndir voru teknar fyrir ári síðan í haustlitadýrðinni á Þingvöllum. Þarna er ég komin 35 vikur á leið. Ótrúlegt að hugsa til þess, mér finnst eins og þessi mynd hafi verið tekin í síðustu viku, en nei, ár síðan. Í dag (akkúrat í dag einmitt) á ég 11 mánaða gamla stelpu sem er bara korter frá því að byrja að tala. Á þessum tíma, fyrir ári síðan, Taldi mig vera mega tilbúna í það sem koma skyldi, það var nú meiri misskilningurinn, það er ekkert sem undirbýr mann fyrir barneignir, barnið bara kemur og svo reddast þetta bara einhvern veginn og er um leið algjörlega frábært. Ég veit að þessi málsgrein meikaði ekki mikinn sens en ég get ekki útskýrt þetta betur.
Þetta var yndislegt frí sem við fórum í þarna, gistum á Grímsborgum eina nótt og nutum þess að vera bara við tvö áður en litli gullmolinn kom.

En þrátt fyrir rigningu og rok undanfarna daga þá komu nú samt nokkrir æðislegir dagar um daginn, það hefði mátt halda að sumarið hafi eitthvað ruglast. Sól og hiti í miðjum september. Við mæðgur nýttum tækifærið og skelltum okkur á róló og nutum þess að vera úti í góða veðrinu. Klörunni finnst ekki lítið gaman að vera úti og ég tala nú ekki um að fá að fara í róluna. Daman stækkar og stækkar, hún gerir eitthvað nýtt á hverjum degi og kemur okkur stoltu foreldrunum sífellt á óvart. Hún gefur lífinu lit, það er ekkert öðruvísi en það. Er ekki tilvalið að detta í Róló-Klöru-myndasyrpu, svona í tilefni 11 mánaða "afmælisins", haustsins og almennrar gleði? Let's go!



 Rólugleðin í hámarki hjá minni.




 Sólskinsmæðgur


 Mín búin að finna sér stein - fyrst að gefa mömmu.



 Jæja, fyrst mamma vill ekki taka hann, þá stríði ég henni bara...


...og þykist ætla að borða steininn, tíhí.


Æj, mamma nennti ekki þessum leik svo ég fer bara eitthvað annað að leika.

Þarna gefur að líta þá snilldar aðferð sem dóttir mín beitir til að færa sig úr stað. Skríða á fjórum fótum? Nei, takk, það hentar mér ekki, segir Klaran. Hún mjakar sér áfram á rassinum og annarri hendi. Þetta er auðvitað mjög praktískt því þá er maður með eina frjálsa hendi til að halda á ýmsu dóti, eða eins og í þessu tilfelli steini.

Gleðilegt haust

ást Kristín

miðvikudagur, 7. október 2015

Afmælisundirbúningur

Maður verður náttúrulega nett klikkaður af því að eignast barn. Ekki að ég hafi verið eitthvað sérstaklega normal fyrir, en þið vitið. Núna er mánuður í að Klaran verði eins árs og því löngu kominn tími á að undirbúa afmælisveisluna, ekki satt? 
Ykkur finnst þetta kannski svolítið snemmt, það getur svo sem vel verið að það sé eitthvað til í því. En ég er nú samt sem áður löngu byrjuð að skipuleggja og finnst ég samt vera að renna út á tíma. Ég meina, barnið verður bara einu sinni 1 árs, it has to be perfect! 

Ok, róa sig Kristín, hún mun ekki einu sinni muna eftir þessu - en myndir segja meira en þúsund orð svo það er eins gott að standa sig!

Nei ok, ég ætla nú að reyna að hemja mig. En það sem mikilvægast er er að mér finnst þetta mjög gaman, ég ætla því að reyna að einblína á það, að hafa gaman að þessu í stað þess að lenda í einhverju mega stressi og fríka út því ég gleymdi að kaupa eitthvað skraut eða baka eina sort.

Ég er eiginlega mjög fegin að það fylgi ekki dagsetning með þegar maður býr til nýtt "board" í Pinterest, því það er svo hættulega langt síðan ég bjó til "afmælis-board" þar inni. Ég hef svo við og við dottið á smá rúnt og "pinnað" það sem heillar. Ég er allavega komin með þema - sem er mjög auðvelt að átta sig á hvað er ef "pinnin" mín eru skoðuð. 

Ég ætla að skreyta afmæliskökuna sjálf, en ætla þó að breyta út af vana okkar pabba í þeim málum og gera prufu núna um helgina. Já, við pabbi erum miklir smjörkremskökugerðamenn og höfum verið síðan ég var smástelpa. Pabbi skreytti alltaf afmæliskökurnar okkar og kenndi mér svo um leið og ég gat haldið á sprautunni. Þetta var sko hérna back in the day þegar litirnir fengust ekki einu sinni á landinu og því þurfti hann að fá sérsendingar frá Aaaameríkunni, góðir tímar. En ég hlakka mikið til að prófa kökugerðina um helgina, það verður að leggja smá metnað í hlutina, ekki satt?

Læt fylgja nokkur vel valin "pin" úr "afmælis-boardinu"












ást Kristín






sunnudagur, 4. október 2015

Ávextir bæta og kæta

Ég er alveg svakalegur nammigrís og sukkari af guðs náð. En við og við tek ég mig samt saman í andlitinu og reyni að velja eitthvað hollara í stað súkkulaðsins. Það er alveg ótrúlegt, það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hversu mikil snilld ávextir eru. Eina sem gerir þá flóknari í undirbúning en nammið er í mesta lagi að skræla og eða að skera þá niður. Ávextir eru ferskir og ekkert smá bragðgóðir, allavega flestir. Ég tala nú ekki um hversu hamingjusöm samviskan er þegar maður sest upp í sófa með dýrindis ávaxtasalat í skál í stað nammipoka.

Ég var heima að læra í vikunni og ákvað að útbúa mér hollan og góðan hádegisverð. Ég bara gat ekki annað en myndað hann í bak og fyrir, svo girnilegur var hann.


 Þetta þarf svo innilega ekki að vera flókið. Ég útbjó gríska jógúrt með ávöxtum og bananapönnukökur.


Grísk skál:
2 msk af grískri jógúrt
1/2 epli
1/2 appelsína
4-5 jarðaber
1 msk chia fræ
1 msk rúsínur

Ég er búin að skella í svona skál hættulega oft síðustu tvær vikurnar og er alltaf jafn ástfangin. Fór svo í Krónuna í gær og fyllti á lagerinn, epli, appelsínur, bláber, jarðaber og fleira. Ný vika mun væntanlega ekki innihalda færri svona skálar. Þetta þarf ekkert að vera flókið.


Bananapönnsur
2x þroskaðir bananar
2x egg
1 tsk kanill
1/2 bolli haframjöl
Steikt upp úr kókosolíu
(uppskrift fengin af Pjatt)
Ég bætti svo við góðri msk af venjulegu hveiti - fannst þetta vera aðeins of slepjulegt fyrir minn smekk. Svo stráði ég bara kókosmjöli, 70% súkkulaðispænum yfir (sko, þetta telst ekki sem sukk-súkkulaði, það er sko 70%!! ).



Eru þið ekki pínku sammála mér? Þetta er nokkuð girnó hádegisverður - þessu skolaði ég niður með vatni og svo kaffi sem var auðvitað sett í Múmínbolla, hvað annað?

Þetta var annars bara svona hollustupistill ársins, get ekki lofað því að þeir verði margir, enda alltaf hætta á að nammipokinn finni mig aftur bölvaður.

ást Kristín