sunnudagur, 4. október 2015

Ávextir bæta og kæta

Ég er alveg svakalegur nammigrís og sukkari af guðs náð. En við og við tek ég mig samt saman í andlitinu og reyni að velja eitthvað hollara í stað súkkulaðsins. Það er alveg ótrúlegt, það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hversu mikil snilld ávextir eru. Eina sem gerir þá flóknari í undirbúning en nammið er í mesta lagi að skræla og eða að skera þá niður. Ávextir eru ferskir og ekkert smá bragðgóðir, allavega flestir. Ég tala nú ekki um hversu hamingjusöm samviskan er þegar maður sest upp í sófa með dýrindis ávaxtasalat í skál í stað nammipoka.

Ég var heima að læra í vikunni og ákvað að útbúa mér hollan og góðan hádegisverð. Ég bara gat ekki annað en myndað hann í bak og fyrir, svo girnilegur var hann.


 Þetta þarf svo innilega ekki að vera flókið. Ég útbjó gríska jógúrt með ávöxtum og bananapönnukökur.


Grísk skál:
2 msk af grískri jógúrt
1/2 epli
1/2 appelsína
4-5 jarðaber
1 msk chia fræ
1 msk rúsínur

Ég er búin að skella í svona skál hættulega oft síðustu tvær vikurnar og er alltaf jafn ástfangin. Fór svo í Krónuna í gær og fyllti á lagerinn, epli, appelsínur, bláber, jarðaber og fleira. Ný vika mun væntanlega ekki innihalda færri svona skálar. Þetta þarf ekkert að vera flókið.


Bananapönnsur
2x þroskaðir bananar
2x egg
1 tsk kanill
1/2 bolli haframjöl
Steikt upp úr kókosolíu
(uppskrift fengin af Pjatt)
Ég bætti svo við góðri msk af venjulegu hveiti - fannst þetta vera aðeins of slepjulegt fyrir minn smekk. Svo stráði ég bara kókosmjöli, 70% súkkulaðispænum yfir (sko, þetta telst ekki sem sukk-súkkulaði, það er sko 70%!! ).



Eru þið ekki pínku sammála mér? Þetta er nokkuð girnó hádegisverður - þessu skolaði ég niður með vatni og svo kaffi sem var auðvitað sett í Múmínbolla, hvað annað?

Þetta var annars bara svona hollustupistill ársins, get ekki lofað því að þeir verði margir, enda alltaf hætta á að nammipokinn finni mig aftur bölvaður.

ást Kristín


Engin ummæli:

Skrifa ummæli