fimmtudagur, 30. júlí 2015

SKÓR SKÓR SKÓR

Ég elska skó og hef gert mjöööög lengi. Geri mér ekki alveg grein fyrir hvenær þessi skódella mín byrjaði, jafnvel bara um leið og ég gat farið að kaupa mín eigin skó. 
Ég var allavega ekkert svakaleg gömul, kannski 17 ára, þegar skópörin voru komin upp undir fimmtíu talsins. Þeim hefur svo farið nokkuð fjölgandi síðan. Minnir að ég hafi einhvern tímann talið á bilinu 65-70. Þetta er auðvitað algjör geðveiki og hver heilvita maður veit að maður hefur ekkert við svona mörg pör að gera. Auk þess nær maður varla að nota þau öll af alvöru, en hey, skór eru skemmtilegir og fallegir. Ekki það, þetta er víst enginn fjöldi miðað við hjá mörgum. Ég gleymi ekki þegar ég kynntist karlmanni sem sagðist eiga um 150 pör, takk fyrir pent!

Ég hef nú tekið mig nokkuð mikið á í þessari söfnun, losaði mig við 11 pör um daginn bara sisvona, toppiði það!

Ég hef samt, sem kannski betur fer, ekki eytt neinum fúlgum fjár í öll þessi skópör. Magnið skipti mig alltaf meira máli en gæðin. Sú skoðun er nú á undanhaldi, guði sé lof. Undanfarið hef ég einbeitt mér að því að kaupa fá pör en góð. Það er jákvæð breyting, ég legg meiri metnað í valið, þarf sjaldnast að ganga þá mikið til, enda eru þeir úr almennilegum efnum og mér líður eins og geti labbað 100km í þeim án þess að kvarta. Sem er ólíkt því sem var áður þegar ég gerði lítið annað en að setja plástra á hælsæri og reglulega pína mig til að nota einhverja óþægilega skó því ég átti þá. Gáfað? ekkert mjög.

Til að ýta undir þessar jákvæðu breytingar hjá mér og sanna það að ég er hætt skó-magnkaupum þá skellti ég mér bæði í Kringluna og Smáralindina um helgina. Planið í Kringlunni var að kaupa sápu og í Smáralindinni ætlaði ég að finna mér nærföt. Ég kom heim með hvorugt. Í staðinn kom ég heim með þrjú ný skópör. Batnandi mönnum er best að lifa.

Hver þarf að ná bata þegar hann á þrjú ný gullfalleg skópör? Ekki ég.


Eru þau ekki krúttleg? - Inniskórnir koma úr Focus, krómaðir, mega töff, mér finnst það allavega.
Merkilega þægilegir þrátt fyrir að vera kannski ekkert svakalega merkilegir. Ég er allavega ekki búin að fara úr þeim.

Sumarlegir (jájá sumarið er að verða búið I know) úr Bossanova á litlar 2500kr, hver segir nei við því? Besta við þá er að ég get bara stokkið í þá, ekkert reim vesen eða neitt. Vinkona mín benti mér reyndar á að það er sjúkur munur á bláa litnum á hvorum skó, damn, var ekki búin að taka eftir því og get núna ekki hugsað um annað. En æj, þeir eru samt sætir.

Þessir voru á mega útsölu í Föcus, ægilega penir en samt nett klossaðir, get notað þá spari og fílað mig fína án þess að þurfa að skakklappast (já þetta er orð) á hælum. Fannst samt pínku eins og ég væri að kaupa fermingarskóna aftur, er ekki frá því að þetta sé sama týpa og var í tísku þá. Þessi tíska fer náttúrulega bara í endalausa hringi!
Jibbí jibbí jibbí

Ég er svo hamingjusöm með þessi skemmtilegu nýju skópör og hey, þetta er alveg öll víddin, inniskór, spariskór og hversdagsskór. Ég gæti næstum bara átt þessi pör og verið vel sett. Ja fyrir utan kuldaskó og íþróttaskó og sandala og háhælaða og strigaskó til skiptana og strigaskó í öðrum lit og stígvél og sumarskó og vetrarskó og og og... Who am I kidding? ég þarf bara mín ca 50 skópör og hana nú.

ást Kristín

miðvikudagur, 29. júlí 2015

Tilbreyting

Þó ég sé nú almennt frekar hress og jákvæð pía þá get ég við og við átt svona daga þar sem ég eiginlega bara "nennissiggi". Þið vitið hvað ég á við. Þetta er ekkert alvarlegt, ekkert til að hafa áhyggjur af. Þetta er bara svona dagur þar sem maður er einhvern veginn ekki í stuði fyrir allt og alla. Æj þið vitið hvað ég meina (eða ég vona það).

Ég átti einmitt þannig dag um daginn. Dag þar sem ég sagði hreinlega við ástmanninn ,,ég eiginlega nenni ekki að vera mamma í dag". Þetta kannski hljómar illa og einhverjir sem verða hneykslaðir á mér að láta þetta frá mér. En svona er þetta bara, læknar nenna ekki að vera læknar alla daga, kennarar nenna ekki að vera kennarar alla daga og þá er nú ekkert skrýtið að pabbar og mömmur nenni ekki að vera pabbar og mömmur alla daga, ekki satt? En það þýðir auðvitað ekki að maður losni undan ábyrgðinni, enda fríaði ég mig ekkert ábyrgðinni og sagði upp. Mér leið sem betur fer ekki svo illa. Þetta var bara svona dagur þar sem mig langaði pínku að vera meira bara ég-Kristín í stað mamma-Kristín. Það er svolítið erfitt að útskýra þetta en ég vona að einhverjir skilji hvað ég á við. 

Stærsti gallinn við það að mér leið svona einmitt þá var að ástmaðurinn var að leggja af stað í veiði og var ekki væntanlegur heim aftur fyrr en daginn eftir. Það þýddi að ég átti í vændum sólarhring ein með barninu sem í þokkabót var pínku pirripú vegna tanntöku. Ég verð því miður að játa að ég varð frekar örvæntingarfull og sá fram á fremur þreyttan og þungan sólarhring. Ekki það að barnið mitt sé erfitt og leiðinlegt, alls ekki. Barnið mitt er það skemmtilegasta og yndislegasta barn sem til er, bara svo það sé á hreinu :)

Í skyndi ákvað ég að heyra í foreldrum mínum, heyra hvort þau væru pottþétt lögð af stað upp í sumarbústað eins og ætlunin var. Mamma svaraði og sagði þau vera að setjast upp í bíl. Ég bað þau þá að koma við og taka okkur mæðgur bara með. Á fimm mínútum henti ég því allra mikilvægasta í tösku og nokkrum mínútum síðar vorum við komnar upp í bíl hjá foreldrum mínum á leið í sumarbústaðinn. Þar fyrir var bróðir minn og fjölskyldan hans. Við mæðgur dvöldum því með þeim öllum í eina nótt á meðan pabbinn var í veiðinni, í stað þess að hanga einar heima. Þrátt fyrir stutta dvöl og lítinn fyrirvara þá var þetta einmitt það sem ég þurfti, algjör "lifesaver". Ekki skemmdi svo fyrir að bróðir minn og pabbi grilluðu gúrme mat (giska á að dominos pizza hefði orðið fyrir valinu ef ég hefði verið heima, ég er nefnilega svo metnaðarfullur kokkur - hóst hóst) og svo var bongóblíða á pallinum.

Amma og Klara í lautarferð 

Mæðgur að sóla sig á pallinum

Útsýnið frá bústaðnum
Æj stundum verður maður bara að játa fyrir sjálfum sér að maður þarf á tilbreytingu að halda. Þessi tilbreyting bjargaði deginum og svo miklu meiru. Ég er allavega alveg til í restina af vikunni. Auk þess er ég líka svo heppin, að ég á alveg bráðskemmtilega fjölskyldu sem var ekki lengi að hressa mig við.

ást Kristín








þriðjudagur, 28. júlí 2015

Morgunmatur sem bætir og kætir

Það er einhvern svo miklu skemmtilegra að útbúa morgunmat þegar maður á ferska og góða ávexti, tala nú ekki um þegar maður á fersk ber. Ég átti einmitt þannig morgun í gær. Ísskápurinn fullur af ferskum berjum eftir grillgleði helgarinnar.

Ég skellti því í einn gómsætan chia-graut. Ég er mikill chia-fan, borða það oftast í einhverju formi á hverjum morgni og þá oftast í formi grauts. Ekki samt fara að halda að það þýði að ég sé einhver healthy-chick. Það er ég alls ekki. Ég er svona týpan sem byrja hvern dag svaka vel, með næringaríkum og hollum morgunverði. Svo kemur hádegisverður sem er svona semí hollur. Eftir hann finn ég smá súkkulaði. Þið getið reiknað út restina.

En nóg um það. Í dag erum við í hollustugír og aðalatriðið er chia-grauturinn með öllu gúmmelaðinu.

Mæli með þessum 


Innihald:
Chia fræ
Möndlumjólk
Vanilluduft
- blanda þessu saman og skelli í ísskápinn í minnst 10 mín (best að geyma yfir nótt) - 
Jarðaber
Bláber
Epli
Nokkrar rúsínur
Kókosmjöl
Smá Agave sýróp


Bon appetit!

ást Kristín

mánudagur, 27. júlí 2015

Að eignast barn

Follow my blog with Bloglovin
Það hefur alveg einhver slatti drifið á daga mína síðan bloggið var á lífi síðast. Ekki nóg með að hafa klárað fyrra árið í mastersnáminu, ferðast bæði innan lands og utan og fleira þá gekk ég í gegnum þá mögnuðu lífsreynslu að eignast barn.

Já, ég bjó þessa dásemd til, með smá hjálpi frá mínum heittelskaða - hversu magnað?

Það er kannski ágætt, svona ykkar vegna, að það séu nú liðnir rúmlega 8 1/2 mánuður síðan. Sem þýðir að fæðingin er mér ekki enn efst í huga, ó blessuð fæðingin. Ef ég hefði skrifað þessa færslu viku eftir fæðingu, jafnvel mánuði, þá hefði ég alveg pottþétt ekki verið eins jákvæð og ég er núna. Ég get allavega fullyrt að ég var sko ekki neitt svakalega viss um að ég væri til í að gera þetta aftur. En núna er ég alveg "back on track" með "þriggja-barna-planið" mitt, og í raun búin að vera í nokkurn tíma. Já, kannski best að koma því strax út að ég er ekki ólétt, svona svo þið farið ekki að reyna að leggja saman tvo og tvo og fá út fimm.

Þið megið samt ekki misskilja mig, fæðing er mögnuð og það er mjög hollt fyrir mann að tjá sig um fæðinguna og jafnvel skrifa hana niður. Þá áttar maður sig einhvern veginn betur á hvað gerðist, hvernig það gerðist og afhverju. Ég gerði þau mistök að skrifa mína niður þegar dóttir mín var næstum orðin 3 mánaða. Mikil mistök. Því sagan er að mestu bara krúttleg og falleg saga um það þegar undrið mitt leit dagsins ljós. Ég hefði sem sagt átt að skrifa hana aðeins fyrr, á meðan alvöru sagan var enn í kollinum. Minn heittelskaði er ekki alveg tilbúinn í að samþykkja söguna eins og ég skrifaði hana. Við höfum sem sagt komist að því að pabbarnir gleyma þessu töluvert hægar en mæðurnar, sem er kannski bara ágætt.

Í stuttu máli samt þá kom hún elsku Klara mín í heiminn 8. nóv. 2014 kl. 11:09, ég var þá gengin 40 vikur og 4 daga. Það liðu ekki nema 10 klst. frá fyrstu verkjum í að hún var komin í heiminn, sem telst víst bara nokkuð gott. 

Það tók okkur foreldrana smá tíma að læra á nýju hlutverkin okkar og að stilla strengi okkar saman við hennar. Tilfinningarnar eru svo sterkar og þær hoppa fram og tilbaka á hraða ljóssins á þessum fyrstu vikum. Þetta var alveg ótrúlegur tími sem ég vil hálft í hvoru ekki hugsa um en geri nú samt oftast með bros á vör. Á þeim tíma fannst manni tíminn bæði fljótur og lengi að líða. Hann var lengi að líða þegar einhverjir erfiðleikar voru til staðar eða miklar áhyggjur að buga mann, en fljótur að líða þegar hlutirnir gengu vel. 

Ég man að ég var alveg furðulostin á hvað bróðir minn og konan hans mundu lítið um tímasetningar varðandi hitt og þetta hjá dóttur þeirra, sem þá var ekki nema 1 1/2 árs. Hvernig gátu þau ekki munað hvenær brjóstagjöfin var komin í gott horf, hvenær hún fór að sofa vel á nóttinni, hvenær hún byrjaði að halda höfði o.s.frv? En í dag er Klara mín ekki nema 8 1/2 mánaða og ég get ekki fyrir mitt litla líf munað þessar tímasetningar. Eina sem ég hef áttað mig á er að þessir erfiðleikar stóðu bara yfir í nokkra daga eða vikur, en ekki heila eilífð eins og mér fannst þá. Og eftir á að hyggja hugsar maður, hverju skipta nokkrar vikur, eða kannski nokkrir mánuðir? Í raun engu, þetta er svo lítill hluti af öllu lífinu. Ég get allavega fullyrt að ég sé ekki eftir einni mínútu af síðustu mánuðum, hvorki þeim erfiðu né auðveldu. Þó ég hafi kannski ekki skilið það í desember sl. þá skil ég það vel núna hvernig fólki getur dottið í hug að endurtaka leikinn.

Bottom line: Mitt ráð til nýbakaðra foreldrar (og þeirra sem eiga kannski einhvern tímann eftir að verða það) sem eru kannski svolítið lost í þessu öllu (sem btw er mjög eðlilegt) er einmitt ráðið sem kom oftast upp þegar ég gúgglaði hitt og þetta fyrstu vikurnar og fór alltaf jafn mikið í taugarnar á mér: It will pass, ég lofa!

ást Kristín

sunnudagur, 26. júlí 2015

Sunnudagsmorgun

Follow my blog with Bloglovin
Það er ekki langt síðan ég hefði álitið mig eitthvað veika, já eða fulla og nýkomna af djamminu ef ég var vakandi kl. 6:00 á sunnudagsmorgni (sem ég kýs nú eiginlega að kalla nótt). En það eru víst breyttir tímar. Það að eiga barn hefur ýmsar breytingar í för með sér sem maður er samt merkilega fljótur að sætta sig við.

Líkt og áður hefur komið fram þá er ég frekar löt týpa og er því ekki sú sem dríf mig á fætur og hugsa ,,hey, vá nú get ég bara drifið í öllu sem ég þarf að gera og verið búin fyrir hádegi". Eða ok, jú, ég hugsa það, en geri ég það? Nei. Í staðinn eyði ég fyrstu tímum dagsins í að yfirfara internetið, á meðan barnið dundar sér á gólfinu. Fer yfir allt það sem hefur gerst þar síðan kvöldið áður. Ég er algjör Instagram-Facebook-Snapchat-fíkill. Ég elska þessi forrit. Sem er kannski ekkert skrýtið þar sem ég hef mikinn (stundum of mikinn áhuga) á fólki og öllu sem því tengist. Hvað það er að gera, hverjum það er með, í hverju það er, afhverju það gerir svona en ekki hinsegin o.s.frv. Já, það mætti segja að ég væri pínku klikk. En það verða einhverjir að vera það.

Með því að fylgjast vel með á þessum síðum hef ég komist að einu. Ég er greinilega komin á "brúðkaupsaldurinn". Mér líður eins og Instagram sýni mér ekki annað en brúðkaupsmyndir, þá auðvitað sérstaklega um helgar. Það eru allir að gifta sig, ég meina það. 
Ég elska brúðkaup. Allt svo fallegt, hamingjusamt og fínt. Þess vegna er einmitt svo gaman að skoða allar þessar myndir, það eru allir svo fínir, stelpurnar í sumarlegum kjólum, strákarnir í sínu fínustu jakkafötum, falleg brúðhjón, allir brosandi og kátir. 

Það er bara einn hængur á. Vinir mínir og ættmenni eru eitthvað treg til að gifta sig. En endilega, elsku vinir og ættmenni, drífið ykkur upp að altarinu svo Kristín geti skellt sér í sætan kjól og skálað við ykkur í freyðivíni. Ég lofa að haga mér og vera bara temmilega hress, ekkert of neitt.

Þangað til, þá læt ég mig bara dreyma.





Njótið sunnudagsins!

ást Kristín



laugardagur, 25. júlí 2015

...ég er á lífi

10 mánuðum síðar, er þá ekki tilvalið að "pick it up where we left off"?

Merkilegt, fyrsta færsla bloggsins var 22. júlí 2014, sem sagt fyrir næstum því akkúrat ári síðan. Ætli júlímánuður sé tíminn sem ég upplifi þörf til að koma hugsunum mínum frá mér? Nei, ætli það sé ekki einhver önnur útskýring.

Jafnvel sú að í júlí finnst mér ég hafa lausa stund til þess. Ég er nefnilega mjög dugleg í því að ætla að klára allt annað áður en ég geri eitthvað skemmtilegt eða sem mig langar til. Verð að klára að þurrka af, taka til, þvo, vaska upp, taka til í skápunum, þrífa grillið, þvo bílinn, versla í matinn, flokka skó, þrífa eldavélina, o.s.frv., o.s.frv. áður en ég get "leyft" mér að gera eitthvað afslappað, t.d. horfa á sjónvarpið, lesa bók, fara út í göngutúr, heimsækja fólk eða bara simple hlut eins og að blogga. Núna kannski haldið þið (þ.e. þið sem þekki mig ekki vel því mínir nánustu vita alveg sannleikann) að ég sé týpan sem er alltaf með allt á hreinu, allt hreint, flokkað, þvegið og skipulagt. Nei elsku vinur, far from it! Það er nefnilega einn stór galli á gjöf Njarðar, ég þjáist af gígantískri leti.

Þetta er sem sagt frekar vonlaus barátta sem ég hái daglega við sjálfa mig, ég nenni ekki að gera hlutina sem mér finnst ég verða að gera áður en ég get leyft mér að gera eitthvað skemmtilegt. Er þetta eðlilegt? Held ekki. Hljómar allavega fáránlega steikt en svona er maður, kolruglaður. Ég vona innilega að ég sé ekki ein um að vera svona klikkuð, anybody?

Ég er sem betur fer svo lánsöm með maka sem vinnur hart að því að lækna mig af þessari geðveiki, með því að innleiða meiri "YOLO"-hugsjón í líf mitt. Hljómar kannski hallærislegt en ég er ekki frá því að ég sé alltaf aðeins að skána. Ég vona það allavega. Það þýðir ekki að vera alltaf að hafa áhyggjur af því að allt líti perfect út eða vera með stanslaust samviskubit yfir að vera ekki búin að gera hitt og þetta, stundum verður maður bara að segja YOLO og gera eitthvað skemmtilegt, annars er lífið bara boring, ekki satt?

Það er líka hægt og rólega að síast inn hjá mér að letin minnkar ef ég passa að gera eitthvað skemmtilegt líka með. Æj, þið vitið, maður gerir eitthvað gaman og kemur svo heim og er þá kannski bara dottin í "taka-til-í-geymslunni-gír" og drífur bara í því. Hversu frábært? Mjög.

Vó, fyrsta færslan í næstum ár og ég er bara strax dottin í djúpa pakkann. Sorry með mig kids. Hef þetta ekki lengra í bili. Ætla ekki að lofa neinu um framhaldið, best að vera ekki að lofa einhverju sem maður er ekki viss um að geta staðið við. Ok, ætla samt að lofa einu. Ég verð ekki alltaf svona djúp. Er sko almennt bara hress.

Alveg svona hress (og nei, ég er ekki nakin á myndinni þó það lúkki næstum þannig)

ást Kristín