Ég elska skó og hef gert mjöööög lengi. Geri mér ekki alveg grein fyrir hvenær þessi skódella mín byrjaði, jafnvel bara um leið og ég gat farið að kaupa mín eigin skó.
Ég var allavega ekkert svakaleg gömul, kannski 17 ára, þegar skópörin voru komin upp undir fimmtíu talsins. Þeim hefur svo farið nokkuð fjölgandi síðan. Minnir að ég hafi einhvern tímann talið á bilinu 65-70. Þetta er auðvitað algjör geðveiki og hver heilvita maður veit að maður hefur ekkert við svona mörg pör að gera. Auk þess nær maður varla að nota þau öll af alvöru, en hey, skór eru skemmtilegir og fallegir. Ekki það, þetta er víst enginn fjöldi miðað við hjá mörgum. Ég gleymi ekki þegar ég kynntist karlmanni sem sagðist eiga um 150 pör, takk fyrir pent!
Ég hef nú tekið mig nokkuð mikið á í þessari söfnun, losaði mig við 11 pör um daginn bara sisvona, toppiði það!
Ég hef samt, sem kannski betur fer, ekki eytt neinum fúlgum fjár í öll þessi skópör. Magnið skipti mig alltaf meira máli en gæðin. Sú skoðun er nú á undanhaldi, guði sé lof. Undanfarið hef ég einbeitt mér að því að kaupa fá pör en góð. Það er jákvæð breyting, ég legg meiri metnað í valið, þarf sjaldnast að ganga þá mikið til, enda eru þeir úr almennilegum efnum og mér líður eins og geti labbað 100km í þeim án þess að kvarta. Sem er ólíkt því sem var áður þegar ég gerði lítið annað en að setja plástra á hælsæri og reglulega pína mig til að nota einhverja óþægilega skó því ég átti þá. Gáfað? ekkert mjög.
Til að ýta undir þessar jákvæðu breytingar hjá mér og sanna það að ég er hætt skó-magnkaupum þá skellti ég mér bæði í Kringluna og Smáralindina um helgina. Planið í Kringlunni var að kaupa sápu og í Smáralindinni ætlaði ég að finna mér nærföt. Ég kom heim með hvorugt. Í staðinn kom ég heim með þrjú ný skópör. Batnandi mönnum er best að lifa.
Hver þarf að ná bata þegar hann á þrjú ný gullfalleg skópör? Ekki ég.
Jibbí jibbí jibbí
Ég er svo hamingjusöm með þessi skemmtilegu nýju skópör og hey, þetta er alveg öll víddin, inniskór, spariskór og hversdagsskór. Ég gæti næstum bara átt þessi pör og verið vel sett. Ja fyrir utan kuldaskó og íþróttaskó og sandala og háhælaða og strigaskó til skiptana og strigaskó í öðrum lit og stígvél og sumarskó og vetrarskó og og og... Who am I kidding? ég þarf bara mín ca 50 skópör og hana nú.
ást Kristín











