Þó ég sé nú almennt frekar hress og jákvæð pía þá get ég við og við átt svona daga þar sem ég eiginlega bara "nennissiggi". Þið vitið hvað ég á við. Þetta er ekkert alvarlegt, ekkert til að hafa áhyggjur af. Þetta er bara svona dagur þar sem maður er einhvern veginn ekki í stuði fyrir allt og alla. Æj þið vitið hvað ég meina (eða ég vona það).
Ég átti einmitt þannig dag um daginn. Dag þar sem ég sagði hreinlega við ástmanninn ,,ég eiginlega nenni ekki að vera mamma í dag". Þetta kannski hljómar illa og einhverjir sem verða hneykslaðir á mér að láta þetta frá mér. En svona er þetta bara, læknar nenna ekki að vera læknar alla daga, kennarar nenna ekki að vera kennarar alla daga og þá er nú ekkert skrýtið að pabbar og mömmur nenni ekki að vera pabbar og mömmur alla daga, ekki satt? En það þýðir auðvitað ekki að maður losni undan ábyrgðinni, enda fríaði ég mig ekkert ábyrgðinni og sagði upp. Mér leið sem betur fer ekki svo illa. Þetta var bara svona dagur þar sem mig langaði pínku að vera meira bara ég-Kristín í stað mamma-Kristín. Það er svolítið erfitt að útskýra þetta en ég vona að einhverjir skilji hvað ég á við.
Stærsti gallinn við það að mér leið svona einmitt þá var að ástmaðurinn var að leggja af stað í veiði og var ekki væntanlegur heim aftur fyrr en daginn eftir. Það þýddi að ég átti í vændum sólarhring ein með barninu sem í þokkabót var pínku pirripú vegna tanntöku. Ég verð því miður að játa að ég varð frekar örvæntingarfull og sá fram á fremur þreyttan og þungan sólarhring. Ekki það að barnið mitt sé erfitt og leiðinlegt, alls ekki. Barnið mitt er það skemmtilegasta og yndislegasta barn sem til er, bara svo það sé á hreinu :)
Í skyndi ákvað ég að heyra í foreldrum mínum, heyra hvort þau væru pottþétt lögð af stað upp í sumarbústað eins og ætlunin var. Mamma svaraði og sagði þau vera að setjast upp í bíl. Ég bað þau þá að koma við og taka okkur mæðgur bara með. Á fimm mínútum henti ég því allra mikilvægasta í tösku og nokkrum mínútum síðar vorum við komnar upp í bíl hjá foreldrum mínum á leið í sumarbústaðinn. Þar fyrir var bróðir minn og fjölskyldan hans. Við mæðgur dvöldum því með þeim öllum í eina nótt á meðan pabbinn var í veiðinni, í stað þess að hanga einar heima. Þrátt fyrir stutta dvöl og lítinn fyrirvara þá var þetta einmitt það sem ég þurfti, algjör "lifesaver". Ekki skemmdi svo fyrir að bróðir minn og pabbi grilluðu gúrme mat (giska á að dominos pizza hefði orðið fyrir valinu ef ég hefði verið heima, ég er nefnilega svo metnaðarfullur kokkur - hóst hóst) og svo var bongóblíða á pallinum.
![]() |
| Amma og Klara í lautarferð |
![]() |
| Mæðgur að sóla sig á pallinum |
![]() |
| Útsýnið frá bústaðnum |
ást Kristín



Engin ummæli:
Skrifa ummæli