þriðjudagur, 26. ágúst 2014

Dekurkvöld Kristínar

Í tilefni þess að í gær var fyrsti dagurinn minn sem mastersnemi í HÍ, að í dag séu 10 vikur í settan dag hjá bumbudömunni og að Kjartan sé á vinnudjammi (já, á þriðjudegi og já, hann vinnur á týpískri 8-16 skrifstofu - allt eðlilegt við þetta) þá ákvað ég að halda Dekurkvöld Kristínar í kvöld. 

Dekurkvöldið byrjaði reyndar frekar snemma, eða um leið og ég lauk vinnudeginum. Ég átti leið í Kringluna og ákvað að kíkja nú á nýju Vero Moda búðina sem allir eru að tala um (eða öllu heldur að blogga um) og gekk alveg óvart út með nýja peysu - en hey, þetta er svona ekta skólapeysa fyrir mastersnemann og passar svona líka vel við bumbuna - ég gat auðvitað ekki annað en skellt í einu "mátunarklefa-selfie"

Er hún ekki kósý?
Næsti liður dekurkvöldsins var heimsókn í Seltjarnarneslaug sem er orðin frekar daglegur viðburður - svo gott að liðka allt til. Ég tapaði mér aðeins í nuddpottinum og kom alveg endurnærð upp úr :) 
Um leið og heim var komið gæddi ég mér á gómsætum ,,ekkert hrátt, takk"-sushibakka frá Tokyo sushi...sleeefff

nammi gott...

Núna sit ég södd og sæl eftir sushið mitt og sjúkt ready í allt alvöru dekrið... mmm..., meira að segja komin með snúð í hárið og í kósýgallann
Þið fáið bara að sjá snúðinn, ekki kósýgallann

Ekki að ég vilji gera ykkur abbó, en hér er svona sýnishorn af því gúrm stöffi sem notað verður í Traðarbúð í kvöld:

Alvöru fótadekur coming up... 
Andlitsmaski, Blue Lagoon og litur á augabrúnir
djös skvísa sem ég verð í fyrramálið, ekki satt?
Að lokum verður þessari makað út um allan líkama....mmm svo mjúkt og gott

Já, djöfull er ég sjúkt til'í'etta! Vona að ég hafi gert ykkur allavega smá abbó ;)
En ég er hér með dottin í dekrið.

Njótið kvöldsins
Ást Kristín


sunnudagur, 24. ágúst 2014

Pabbi gamli árinu eldri

15. ágúst s.l. átti elsku pabbi afmæli, varð 66 ára. Hárið á honum er nú löngu orðið skjannahvítt svo það voru engar miklar sjáanlegar breytingar á honum á afmælisdaginn, ja nema hann var nýklipptur.

Þar sem pabbi er mesti veislukall sem fyrir finnst þá er hann nú vanur að skipuleggja einhverja gleði sjálfur í tilefni dagsins. Undanfarin ár hefur hann boðið góðum hópi í skemmtilegar, litlar og öðruvísi veislur. Þær hafa farið fram á ótrúlegustu stöðum bæjarins, t.d. í gömlu Nexus búðinni og inni á verkstæði Allrahanda. Hann er hugmyndaríkur hann pabbi minn :)

En í ár ákvað hann að sleppa öllu umstangi og ætlaði bara að hafa það náðugt. Okkur hinum, eða aðallega okkur mæðgum, leist auðvitað ekkert á það og ég var því sett í að skipuleggja óvissuferð fyrir hann.
Og viti menn, þrátt fyrir stuttan fyrirvara og hugmyndaleysi til að byrja með þá tókst þetta líka bara svona vel og pabbi ekkert nema sáttur með daginn :)

Dagskráin mikla:

Ferðin hófst ekki fyrr en upp úr hálf 5 þar sem við hin í familíunni þurftum að vinna. En afmælisbarnið var pikkað upp um hálf 5, honum réttur bjór úr kælitöskunni og svo var brunað í suðurátt. Sá gamli kom með alls konar getgátur um hvert væri verið að fara en varð svo steinhissa þegar ég beygði í átt að Þrengslunum. Hann var samt fljótur að átta sig, sagði að við hlytum að vera á leiðinni á Stokkseyri. Sem var bara hárrétt.

Group-selfie af þátttakendum ferðarinnar . Stóri bróðir og co. voru því miður vant við látin í Flatey.

Fyrsta stoppið var í Veiðisafninu á Stokkseyri 


Þar tók Páll Reynisson, eigandi safnsins, vel á móti okkur. Hann leyfði okkur að vera langt fram yfir lokunartíma, en það er mikilvægt að taka sér góðan tíma til að skoða öll þessi fallegu, uppstoppuðu dýr. Páll er sem sagt mikill veiðimaður og hefur ferðast víða í veiðiferðir og lætur svo stoppa dýrin upp og stillir þeim upp á safninu. Æðislega fallegt safn og gaman að heyra sögurnar á bakvið dýrin. Páll og pabbi gátu sko rætt endalaust um veiði og skytterí.
Ég mæli eindregið með Veiðisafninu  - og það besta var að pabbi hafði ekki komið þangað áður (trúið mér, það er erfitt að finna eitthvað sem leiðsögumaðurinn hefur ekki prófað)


Hjónin fyrir utan safnið - það komu smá dropar!
Þegar komið var upp í bíl aftur var boðið upp á meiri bjór, kleinur og jarðaber - haldiði að það sé huggó! Þar sem það var komin nett mikil rigning og ekkert spennandi að stíga út úr bílnum þá voru næstu þrjú stopp bara svona "photo-from-the-car-stop".
 En þau voru:

 Pabbi glaður í óvissuferð
Knarrarósviti sem er staðsettur rétt fyrir sunnan Stokkseyri. Hann þykir mjög flottur, þó það sjáist kannski ekki á þessari mynd, en hey, það var rigning.

Rjómabúið á Baugsstöðum sem er eina rjómabúið sem stendur enn með öllum búnaði. 

Og síðast en ekki síst, Þuríðarbúð.

Pabbi gat auðvitað frætt okkur um þessa staði ásamt því að lesið var á skiltin sem fylgja - við erum sko alvöru túristar, já eða svona "inni-túristar" - hver nennir einhverri rigningu?
Liðið í aftursætinu var allavega yfir sig hrifið af öllum þessum stöðum eins og sjá má:


En nú voru allir orðnir hungraðir (jarðaberin og kleinurnar runnu eitthvað aðeins of hratt niður) og því ekki eftir neinu að bíða en að skella sér í dýrindis 3ja rétta humarveislu á Fjöruborðinu.

Það var sko stjanað við okkur, mennirnir duttu í Bloody Mary, gamla settið sötraði hvítvín og allir gæddu sér á dýrindis humarsúpu, gúffuðu í sig hvítlaukshumri og fylltu svo magann endanlega með tertusneiðum og kaffi. Ó þetta var svo gott og svo æðislegt, ég slefa við tilhugsunina.

Afmælisbarnið les afmæliskortið - Dóttir hans skrifaði það í tölvu og lauk því með einu væmnu svona  <3 - þessi 66 ára las hátt og skýrt ,,minna en þrír"
Þessir voru hressir
Mamma alltaf fín
HUMAR
 Og ekki skemmdi fyrir að það stytti upp og þetta fallega sólarlag blasti við út um gluggann. Það var ekki annað í stöðinni en að stökkva út og taka nokkrar myndir - Auðvitað :)

Parið, 28 vikna bumba og sólsetur
Æj, við getum nú stundum verið pínku krúttleg
Anton að fleyta kerlingar
Mæðgin hress
Á meðan sat afmælisbarnið eftir inni og gúffaði í sig afmælisköku
Þessi var "to die for" - Áfram súkkulaði
Hversu fáránlega girnileg getur ein súkkulaðikaka verið?
Á leið heim keyrðum við í gegnum Eyrarbakka, já eða réttara sagt, keyrðum þrisvar í gegnum Eyrarbakka og rifumst um þak-týpur. Heimamenn stoppuðu okkur og spurðu hvort við værum kannski villt í þorpinu en voru fljótir að flýja þegar við sögðumst bara vera að rífast um þak-týpur, þeim fannst það greinilega ekki alveg normal. Enda höfum við sjaldan verið flokkuð undir ,,normal".

Algjörlega frábært kvöld  með afmælisbarninu og það besta auðvitað að hann var sáttur. Æj, stundum verður maður bara að gera eitthvað öðruvísi til að lífga upp á tilveruna og það tókst sko rækilega þennan dag. Svo á ég líka bara svo bráðskemmtilega fjölskyldu sem kemur manni í gott skap :)

Ást Kristín



laugardagur, 23. ágúst 2014

Áfram hlauparar!

Góðan dag kæru lesendur :)

Dagurinn minn byrjaði líka svona hressandi. Kl. 08:45 fór lúðrasveit í gang ásamt hristum og bjöllum. Einum of glaðir nágrannar í næsta húsi komnir út á svalir með heila hljómsveit til að hvetja hlaupara dagsins áfram. Okkur fannst þetta nú einum of snemmt. En maður má nú ekki kvarta of mikið þegar fólk er svona duglegt að hlaupa og hlaupa.

Ég sýndi nú smá stuðning og fór út á svalir og tók upp eins og eitt Snapchat en fór inn fljótt aftur og útbjó gúrm morgunverð og settist við tölvuna. Um að gera að nýta tímann fyrst maður er á annað borð vaknaður til að blogga, ekki satt?

Hversu gúrm? innihald: Vanilluskyr, banani, bláber, chia fræ og súkkulaðispænir 
Þetta er ekkert smá magn af hlaupurum, sérstaklega í 10 km, strollan var endalaus hérna niður Suðurgötuna. Og litagleðin í takt við það. Ég fíla það svo í botn hvað það er í tísku að vera í crazy litríkum íþróttafötum. Finnst bara að þessi litagleði eigi að færast yfir í hversdagsfatnaðinn líka, ekki þennan endalausa svarta lit sem Íslendingar fá greinilega ekki nóg af. Áfram litir!

æj ok, þetta er mynd síðan í fyrra, þá var ég með mega metnað og fór
út og öskraði og klappaði, en þetta er pretty much the same nema litagleðin var enn meiri í ár. LOVE IT!

Þó ég sé auðvitað stolt af öllum hlaupurum dagsins, þá er nú samt einn sem er án efa sigurvegari dagsins í mínum huga. Það er hún elsku Una Margrét mín sem gerði sér ekki lítið fyrir en tók þátt í 42 km boðhlaupi fyrir hönd sunddeild KR. Hópurinn hljóp til styrktar Von, félags skjólstæðinga á gjörgeisludeild LSH. Hún er sko ekki nema 12 ára gömul daman, vá hvað ég var langt frá því að skella mér í 10 km hlaup á þeim aldri. Ok, ekki það að ég hafi komist eitthvað mikið nær því í seinni tíð. Mig hryllir við tilhugsuninni um blessaðan Tjarnarhringinn í MR sem var ekki nema 2 km, svo 10 km eru faaaaar away. En það þýðir bara að ég fyllist þúsund sinnum meira stolti að sjá Unu Margréti rústa þessu eins og öllu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur. Ég er að segja ykkur það - hún er one of a kind.

Eru þið að tékka á þessum snilling? Þarna eru hún rétt áður en hún lagði af stað, sjúklega tilbúin í allt.
Mmmm...Búllan... nei bíddu - Áfram Una!
Hún er sko enginn nýgræðingur - hérna er hún að klára 3km í Reykjavíkurmaraþoninu 2012 - ekki nema 10 ára!
En jæja, nóg um hlaup, verð bara móð við skrifin ein og sér. Þá er það næsta mál á dagskrá; Menningarnótt. Ég er tvisvar búin að prófa að fara inn á heimasíðuna (www.menningarnott.is) til að skoða dagskrána og sjá hvað er mest áhugavert. En ég hef í bæði skiptin næstum fallið í yfirlið - magnið er svo gífurlegt. Hvar á maður að byrja? Endalausar uppákomur, gjörningar, sýningar, veitingar út um allan bæ.

Ætla að prófa einu sinni enn - ef það tekst ekki þá kemur plan B sterkt inn - að þræða öll vöfflukaffi bæjarins - finn að ég þarf smá orku eftir að hafa fylgst með öllum hlaupurunum.

mmmm.... vaffla
Njótið dagsins elskur

Ást - Kristín


þriðjudagur, 12. ágúst 2014

Tvö líf

Það er svo gaman að gera góð kaup. Ég er nú ekki mikill shopaholic og get verið leiðinlega nísk á föt. Enda elska ég H&M, fataskápurinn minn er örugglega svona 70-80% H&M, án gríns. Ég fell næstum í yfirlið þegar ég sé einhvern mega basic bol á yfir tíu þúsund krónur og ég tala nú ekki um buxur á þrjátíu þúsund. Get ekki hugsað mér að eyða svona upphæð í flík. En engar áhyggjur, mér tekst alveg að eyða peningunum mínum samt, bara í eitthvað allt annað og ekkert endilega gáfulegra.

En aftur að góðum kaupum þá datt ég fyrir algjöra slysni inn í búðina Tvö Líf fyrir helgi. Var að fara með nýja bílinn okkar í þrif hjá Splass og þurfti að eyða smá tíma þar til ég fengi far heim. Ég labbaði því bara yfir í Tvö Líf sem er nokkrum metrum frá. Tvö líf er sem sagt fataverslun sem selur föt fyrir barnshafandi konur og konur með barn á brjósti. Ég hef komið þar einu sinni áður. Sigga vinkona sendi mig þangað í bh og leggings leiðangur sem endaði með dásamlegum en dýrum kaupum. Hef varla farið úr því sem ég keypti - ok, alveg róleg, ég þvæ það nú alveg stundum sko! 
En fötin í Tvö Líf eru svo miklar gæðaflíkur, allt svo mjúkt og þægilegt. En gallinn er að hún er frekar dýr og því ekki á allra færi að fá kaupæði þar inni... eða hvað? Undirritaðri tókst að fá smá kaupæði í þessari ferð en það var líka af því að það var 70% afsláttur og næstsíðasti dagur útsölunnar, hversu mikil snilld er það?

Það sem gerir þetta að enn meiri snilld er sú að ég hafði ekki hugmynd um að það væri útsala, þá verður útsalan einhvern veginn svo miklu meira spennandi og kaupin enn betri í huga manns, kannist þið við þetta?

Ég æddi alveg um eins og stormsveipur og var stuttu seinna mætt í mátunarklefann með hálfa búðina á bakinu, eða svona næstum. Innan við hálftíma síðar var ég komin á kassann með fimm flíkur sem ég fékk allar á upphaflegu verði einnar þeirra.... hversu klikkað? og það sem gerir þetta allt saman enn betra er að ég átti inneignarnótu fyrir helmingnum. Hamingjudagur hjá Kristínu.

Nýju fínu fötin mín - að sjálfsögðu litrík!
Ég tel mig hafa verið nokkuð praktíska í kaupum, keypti tvo óléttuboli til að nota við fínu óléttugallabuxurnar mínar frá H&M (of course) og svo tvo gjafakjóla frá merkinu Boob sem munu án efa koma sér vel í vetur. Einnig læddust með óléttuundirföt - talandi um sexy underwear...! Já eða kannski bara ekker svo sexy. 
Allt þetta á 16þ kr. - sem er sem sagt upphaflegt verð bleika kjólsins lengst til hægri, snilld!

Ég gat ekki annað en farið glöð inn í helgina, nýbúin að versla gæðafatnað sem er allur úr svo sturlað góðu efni, þægilegur og það á spottprís.

Mæli hiklaust með 

Holtasmára 1, Kópavogi
Eru líka með vefverslun

Ást Kristín

sunnudagur, 10. ágúst 2014

GAY PRIDE 2014

Loksins, loksins hafði ég tök á að vera almennilega viðtsödd á Gay Pride! Ég held hreinlega að ég hafi ekki upplifað Gay Pride síðan ég var unglingur. Ég hef oftar en ekki verið að vinna og þá mjög oft út á landi og því misst af allri gleðinni. En í ár var engin ástæða til að mæta ekki og váááá... þetta var æði og ekki skemmdi sólin fyrir :) 


Ó svo mikið af litum

Við mæðgur skelltum okkur saman. Vorum næstum eins klæddar og það alveg óvart, ferskjulitaðar og fínar, litríkar eins og okkur einum er lagið. En hey, ef þetta er ekki dagurinn til að vera litríkur þá veit ég ekki hvaða dagur er það! Við vorum fáránlega heppnar með staðsetningu, stóðum á horninu á Sóleyjargötu og Bragagötu. Ekkert of margt fólk og því sá maður allt svo vel og gat svo auðveldlega fylgt elsku Palla og sungið með honum á leið niður alla Lækjargtötu.

Við mæðgur í stíl í sólinni




Dragdrottning og dragkóngur Íslands
Séra Hjörtur Magni var ferskur
Ooo já, elsku Palli, hann er svo mikill kóngur. Þessi 10 m svanur, þessi búningur, þessir dansarar, þessi lög, þessir textar og þessi endalausa orka og gleði í honum gerir næstum út af við mann. 
Hann er bara maðurinn... enda sögðu bara allir um leið og það sást í vagninn hans ,, hann er að koma" og það spurði enginn ,,hver?"

Elsku besti Páll Óskar



Mæðgu-selfie með Palla í bakgrunn
Ég þakkaði guði fyrir að vera með fínu Ray-in mín á meðan gangan fór framhjá. Hormónarnir létu á sér kræla og ég þurfti að berjast við tárin þegar allt þetta fallega fólk gekk, já eða dansaði, framhjá!

Þetta er svo mögnuð hátíð, hún kemur svo mikilvægum skilaboðum til skila en á jákvæðan og skemmmtilegan hátt.



Í lok göngunnar fengum við mæðgur algjörlega brilliant hugmynd, að finna okkur sæti úti á kaffihúsi í bænum. Það voru bara því miður nokkrir aðrir sem fengu sömu hugmynd og það var allt troðið. Við fengum því bara miklu betri hugmynd. Fengum pabba til að sækja okkur og gæddum okkur á dýrindis veitingum á Café Aðallandi um leið og við sleiktum sólina á svölunum. Veðursældin í elsku Fossvogi verður seint toppuð!

sko, hver þarf kaffihús í bænum þegar Fossvogurinn býður upp á kræsingar?

Á meðan við biðum eftir pabba nýttum við sólina og fallega bakgrunninn sem Tjörnin býður upp á og tókum smá bumbumyndir. Já, það styttist í frumburðinn, ekki nema um 3 mánuðir í að við verðum foreldrar.... spennandi! :)


Jájá, bumbudaman stækkar ört og lætur mömmu sína reglulega vita af sér með smá spörkum :)
Áfram Gay Pride!!

Ást Kristín