Það er ekki langt síðan ég hefði álitið mig eitthvað veika, já eða fulla og nýkomna af djamminu ef ég var vakandi kl. 6:00 á sunnudagsmorgni (sem ég kýs nú eiginlega að kalla nótt). En það eru víst breyttir tímar. Það að eiga barn hefur ýmsar breytingar í för með sér sem maður er samt merkilega fljótur að sætta sig við.
Líkt og áður hefur komið fram þá er ég frekar löt týpa og er því ekki sú sem dríf mig á fætur og hugsa ,,hey, vá nú get ég bara drifið í öllu sem ég þarf að gera og verið búin fyrir hádegi". Eða ok, jú, ég hugsa það, en geri ég það? Nei. Í staðinn eyði ég fyrstu tímum dagsins í að yfirfara internetið, á meðan barnið dundar sér á gólfinu. Fer yfir allt það sem hefur gerst þar síðan kvöldið áður. Ég er algjör Instagram-Facebook-Snapchat-fíkill. Ég elska þessi forrit. Sem er kannski ekkert skrýtið þar sem ég hef mikinn (stundum of mikinn áhuga) á fólki og öllu sem því tengist. Hvað það er að gera, hverjum það er með, í hverju það er, afhverju það gerir svona en ekki hinsegin o.s.frv. Já, það mætti segja að ég væri pínku klikk. En það verða einhverjir að vera það.
Með því að fylgjast vel með á þessum síðum hef ég komist að einu. Ég er greinilega komin á "brúðkaupsaldurinn". Mér líður eins og Instagram sýni mér ekki annað en brúðkaupsmyndir, þá auðvitað sérstaklega um helgar. Það eru allir að gifta sig, ég meina það.
Ég elska brúðkaup. Allt svo fallegt, hamingjusamt og fínt. Þess vegna er einmitt svo gaman að skoða allar þessar myndir, það eru allir svo fínir, stelpurnar í sumarlegum kjólum, strákarnir í sínu fínustu jakkafötum, falleg brúðhjón, allir brosandi og kátir.
Það er bara einn hængur á. Vinir mínir og ættmenni eru eitthvað treg til að gifta sig. En endilega, elsku vinir og ættmenni, drífið ykkur upp að altarinu svo Kristín geti skellt sér í sætan kjól og skálað við ykkur í freyðivíni. Ég lofa að haga mér og vera bara temmilega hress, ekkert of neitt.
Þangað til, þá læt ég mig bara dreyma.
Njótið sunnudagsins!
ást Kristín




Hérna hvernig væri það ef þú og Kjartan giftið ykkur? Þá getur þú verið fín og sæt ;)
SvaraEyðaJá, hvernig væri það?!
Eyða